Jón Óðinn Waage – (29. apríl 1963)

odiJón Óðinn er einn af brautryðjendum júdóíþróttarinnar á Akureyri og á langstærstan heiður af því að gera júdóið hér í bæ að því sem það er. Ódi eins og hann er alltaf kallaður starfaði sem júdóþjálfari á Akureyri í 32 ár og sá um allt sem íþróttinni viðkom á þeim tíma. Á þessum rúmlega 30 árum byggði hann upp afar öfluga júdómenn sem náðu langt. Gott dæmi um það voru þeir Vernhard Þorleifsson og Freyr Gauti Sigmundsson en báðir náðu þeir undir hans stjórn að komast á ólympíuleika en það ná bara þeir sem eru í hópi þeirra bestu í heimi. Íslandsmeistaratitlar undir hans stjórn skipta mörgum hundruðum og alþjóðlegir titlar og verðlaun tugum ef ekki hundruðum.

Ódi hafði einstakt lag á að ná til barna sem eiga við hegðunarerfiðleika að stríða og hefur mikið dálæti á þeim. Það varð til þess að margir þeirra fengu griða í júdóíþróttinni. Sumir þeirra urðu úrvals júdómenn en það sem meira skipti náðu þeir oft tökum á sjálfum sér og þökkuðu það júdóinu og Óda.

 

Freyr Gauti Sigmundsson (17. janúar 1972)

Freyr Gautu Sigmundsson

Freyr Gauti ákvað 14 ára gamall að hann ætlaði að keppa á Olympíuleikunum í Barcelona árið 1992.  Í sex ár stefndi hann markvisst að þessu takmarki sínu. Á þeirri leið vann hann til margra verðlauna á alþjóðlegum mótum og  náði einnig að verða í 9. sæti á Evrópumóti yngri en 21 árs og einnig 9. sæti á Heimsmeistaramóti yngri en 21 árs.  Þá varð hann einnig Norðurlandameistari og sigraði á þrennum Olympíuleikum smáþjóða í röð.  Stærsta afre kið var þó er hann náði takmarki sínu að vinna sér þátttökurétt á Olympíuleikunum í Barcelona 1992.  Til þess varð hann að vera annar tveggja bestu á Norðurlöndum og það tókst honum. Hann féll út í fyrstu umferð en bara það að vinna sér þátttökurétt er gríðarlegur árangur.  Eftir Olympíuleikana breytti Gauti um áherslur, hann hafði frestað öllu námi til að einbeita sér að júdó.  Hann hægði nú á júdókeppni en tók til við námsbækurnar af sama krafti.  Það skilaði sér, hann er núna bæklunarskurðlæknir í Svíþjóð.

 

Vernharð Þorleifsson – (1. ágúst 1973)

VernhardThorleifssonÞegar Vernharð sá hvað Gauti gat gert taldi hann ekki ástæðu til að vera minni maður.  Hann setti stefnuna á Olympíuleikana í Atlanta 1996.  En nú var búið að herða þáttökuskilyrðin inn á Olympíuleikan, til að komast inn varð Vernharð að vera meðal 8 efstu í sínum þydgdarflokki á styrkleikalista Evrópu.  Þegar Gauti fór til Barcelona þurfti hann að vera meðal tveggja bestu á Norðurlöndum í sínum þyngdarflokki og það var nú nógu erfitt.  Til að ná þessu varð Vernharð að vinna til verðlaun á minnst tveimur Heimsbikarmótum sem eru í raun sterkustu mótin sem haldin eru í heiminum.  Það tókst honum og til Atlanta fór hann.  Þar var hann hársbreidd frá því að komast í aðra umferð.  Þessu til viðbótar hefur Vernharð mörgum sinnum orðið Norðurlandameistari, unnið fjöldamörg alþjóðleg mót og síðast en ekki síst náði hann 7. sæti á Heimsmeistaramótinu 2001.  Eftir að Vernharð hætti keppni í júdó hefur hann skapað sér mikla frægð sem Venni Páver í óborganlegum þáttum sem að hann skrifaði sjálfur.