Tvö gull, silfur og brons til Draupnis á Norðurlandamótinu í Júdó um helgina

Norðurlandamótið í Júdó var haldið um helgina í Trollhäten í Svíþjóð og átti Draupnir fjóra einstaklinga á því móti sem valin voru til að keppa fyrir hönd Íslands.

Frá vinstri: Dofri Vikar Bragason, Berenika Bernat, Anna Soffía Víkingsdóttir og Alexander Heiðarsson

Alexander Heiðarsson og Berenika Bernat kepptu í undir 18 ára á laugardeginum og undir 21 árs á sunnudeginum. Alexander sem keppti í -55 kg flokki glímdi mjög vel og vann þrjár glímur og komst alla leið í úrslit í undir 18 ára en tapaði þar gegn mjög sterkum Dana og vann því til silfur verðlauna. Í undir 21 árs komst hann í undanúrslit þar sem hann tapaði fyrir Finna sem vann flokkinn og vann til bronsverðlauna.

Berenika keppti í -63 kg flokki var að keppa á sínu fyrsta Norðurlandameistaramóti og stóð sig frábærlega. Í undir 18 ára vann hún sína fyrstu glímu með glæsibrag, hún vann tvær glímur en tapaði tveim og endaði í sjöunda sæti í sterkum 16 stúlkna flokki. Í undir 21 árs keppti hún við sænska stúlku og stóð mjög vel en tapaði og fékk ekki aðra glímu.

Dofri Vikar Bragason keppti í fullorðinsflokki -60 kg flokki, hann lenti í mjög sterkum riðli og tapaði báðum glímunum sínum en hann barðist vel.

Anna Soffía Víkingsdóttir sem einnig er þjálfari í Draupni keppti í fullorðinsflokki og Veterans (+ 30 ára) Hún vann til tveggja gullverðlauna. Í fullorðins flokki vann hún 3 glímur til þess að tryggja sér gullverðlaunin, tvær þeirra á ippon og eina á wazari. Í veterans vann hún tvær glímur aðra á hengingu og hina á lás.

Frábær árangur hjá okkar fólki, tvö gull, silfur og brons til Draupnis á Norðurlandameistaramóti 2017!